Þetta byrjaði á því að við kennarar hittum þá fugafræðinga, Böðvar og Tómas, reglulega í háskólanum þar sem unglingarnir eru við kennslu. Við umræður kom upp áhugaverður snertipunktur á því að telja fugla með tilliti til loftlagsbreytinga en fuglar eru góður mælikvarði á þá þróun. Við sáum einnig í hendi að þetta væri áhugavert verkefni til að skoða varðandi lífbreytileika á Laugarvatni sem við gætum skoðað sem þemaverkefni í Grænfánanum okkar. Þegar nemendurnir sjálfir hófu máls á því a þeir vildu fara meira út þá var ákveðið að slá til og í kjölfarið höfum við farið 1-2 sinnum í viku og talið fugla. Til að byrja með fór nokkur tími í að læra inn á hvaða fugl við áttum von á að sjá og þekkja þá og þeirra hljóð. Það var líka mjög áhugavert að sjá hversu örar breytingar á fuglalífinu voru með vorinu þegar farfuglarnir streymdu til landsins. Auk þess að telja fáum við mikinn fróðleik frá Böðvari og Tómasi auk þess sem við erum að eflast sjálf í að þekkja og telja fuglana og þau vísindalegu vinnubrögð sem við þurfum að tileinka okkur. Við söfnum saman gögnunum í gagnabanka sem nýtist okkur og þeim og þetta er verkefni sem við viljum vinna áfram til að geta fylgst með þróun mála og þá er mjög gott að hafa stóran gagnabanka til að styðjast við. Auk þess að fræðast um fugla hafa nokkrir nemendur fengið mikla fræðslu í því hvernig best sé að klæða sig með tilliti til aðstæðna á Íslandi, þekking sem virðist hverfa eftir því sem lengra líður á skólastigin.