Áhrif loftslagsbreytinga á fuglastofna

Upplýsingar frá Tómasi Grétari Gunnarssyni:

Miklar breytingar eiga sér nú stað á lífríki um allan heim vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Þar má nefna breytingar á útbreiðslu plantna og dýra og á mikilvægum tímasetningum í ársferli lífvera [1-3]. Ein sú birtingarmynd loftslagsbreytinga sem er hvað mest áberandi í lífríkinu eru breytingar á tímasetningu farflugs og á stofnstærðum fugla [4-6]. Slíkar breytingar standa yfir víða um heim en ástæður og afleiðingar þessara breytinga eru illa þekktar sem er afar bagalegt því fuglum er að fækka hnattrænt [6, 7]. Skilningur á þeim margslungnu vistfræðilegu ferlum og atferli sem standa að baki aðlögun fuglategunda að loftslagsbreytingum er nauðsynlegur ef móta á skilvirkar áætlanir um vernd fuglastofna. Til að skilja ferlin sem ráða viðbrögðum fugla við loftslagsbreytingum er því nauðsynlegt að hafa góða langtímavöktun á mikilvægum þáttum í lífi fugla. Hnattrænar breytingar á náttúru og lífríki eru samansafn staðbundinna atburða. Með stöðluðu átaki, á einstökum stöðum, til lengri tíma er því hægt að afla mikilvægra upplýsinga sem leggja til þekkingar á hnattrænum áhrifum loftslagsbreytinga á lífríkið. Elsta stig Bláskógaskóla á Laugavatni hóf rannsóknaverkefni á þessu sviði í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni haustið 2018.

Markmið verkefnisins er tvíþætt

  • Að kanna breytingar á stærð fuglastofna á og við Laugarvatn með endurteknum og stöðluðum athugunum frá hausti til vors.
  • Að kanna breytingar á fartíma algengra fugla með því að skrá komutíma einstakra tegunda á Laugarvatn að vori og brottför þeirra að hausti.

Heimildir

  1. Huntley, B., et al., A climatic atlas of European breeding birds. 2007: Lynx Edicions Barcelona.
  2. Crick, H.Q. and T.H. Sparks, Climate change related to egg-laying trends. Nature, 1999. 399(6735): p. 423-423.
  3. Thuiller, W., et al., Climate change threats to plant diversity in Europe. Proceedings of the National Academy of Sciences of the united States of America, 2005. 102(23): p. 8245-8250.
  4. Gunnarsson, T.G. and G. Tomasson, Flexibility in spring arrival of migratory birds at northern latitudes under rapid temperature changes. Bird Study, 2011. 58(1): p. 1-12.
  5. Gill, J.A., et al., Why is timing of bird migration advancing when individuals are not? Proceedings of the Royal Society B: Biological Sciences, 2014. 281(1774): p. 20132161.
  6. Gilroy, J.J., et al., Migratory diversity predicts population declines in birds. Ecology letters, 2016. 19(3): p. 308-317.
  7. Kristensen, N.P., et al. Phenology of two interdependent traits in migratory birds in response to climate change. in Proc. R. Soc. B. 2015. The Royal Society.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *