Upplýsingar frá Tómasi Grétari Gunnarssyni:
Miklar breytingar eiga sér nú stað á lífríki um allan heim vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Þar má nefna breytingar á útbreiðslu plantna og dýra og á mikilvægum tímasetningum í ársferli lífvera [1-3]. Ein sú birtingarmynd loftslagsbreytinga sem er hvað mest áberandi í lífríkinu eru breytingar á tímasetningu farflugs og á stofnstærðum fugla [4-6]. Slíkar breytingar standa yfir víða um heim en ástæður og afleiðingar þessara breytinga eru illa þekktar sem er afar bagalegt því fuglum er að fækka hnattrænt [6, 7]. Skilningur á þeim margslungnu vistfræðilegu ferlum og atferli sem standa að baki aðlögun fuglategunda að loftslagsbreytingum er nauðsynlegur ef móta á skilvirkar áætlanir um vernd fuglastofna. Til að skilja ferlin sem ráða viðbrögðum fugla við loftslagsbreytingum er því nauðsynlegt að hafa góða langtímavöktun á mikilvægum þáttum í lífi fugla. Hnattrænar breytingar á náttúru og lífríki eru samansafn staðbundinna atburða. Með stöðluðu átaki, á einstökum stöðum, til lengri tíma er því hægt að afla mikilvægra upplýsinga sem leggja til þekkingar á hnattrænum áhrifum loftslagsbreytinga á lífríkið. Elsta stig Bláskógaskóla á Laugavatni hóf rannsóknaverkefni á þessu sviði í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni haustið 2018.
Markmið verkefnisins er tvíþætt
- Að kanna breytingar á stærð fuglastofna á og við Laugarvatn með endurteknum og stöðluðum athugunum frá hausti til vors.
- Að kanna breytingar á fartíma algengra fugla með því að skrá komutíma einstakra tegunda á Laugarvatn að vori og brottför þeirra að hausti.
Heimildir
- Huntley, B., et al., A climatic atlas of European breeding birds. 2007: Lynx Edicions Barcelona.
- Crick, H.Q. and T.H. Sparks, Climate change related to egg-laying trends. Nature, 1999. 399(6735): p. 423-423.
- Thuiller, W., et al., Climate change threats to plant diversity in Europe. Proceedings of the National Academy of Sciences of the united States of America, 2005. 102(23): p. 8245-8250.
- Gunnarsson, T.G. and G. Tomasson, Flexibility in spring arrival of migratory birds at northern latitudes under rapid temperature changes. Bird Study, 2011. 58(1): p. 1-12.
- Gill, J.A., et al., Why is timing of bird migration advancing when individuals are not? Proceedings of the Royal Society B: Biological Sciences, 2014. 281(1774): p. 20132161.
- Gilroy, J.J., et al., Migratory diversity predicts population declines in birds. Ecology letters, 2016. 19(3): p. 308-317.
- Kristensen, N.P., et al. Phenology of two interdependent traits in migratory birds in response to climate change. in Proc. R. Soc. B. 2015. The Royal Society.